Seðlabanki Brasilíu tilkynnti í gær um mestu stýrivaxtahækkun frá árinu 2002 en bankinn á nú við tveggja stafa verðbólgu að etja. Seðlabankinn hækkaði vexti um 1,5 prósentur og eru stýrivextir í Brasilíu nú komnir upp í 7,75%. Financial Times greinir frá.

Stýrivextir höfðu þegar verið hækkaðir um 100 punkta við síðustu tvær stýrivaxtaákvarðanir brasilíska seðlabankans sem hefur nú hækkað vexti sex sinnum í ár. Hann varaði jafnframt við sambærilegri vaxtabreytingu við næsta fund peningastefnunefndar.

Brasilía, fjölmennasta land Suður-Ameríku, hefur horft upp á verulegar verðhækkanir að undanförnu, meðal annars vegna hækkandi eldsneytiskostnaðar, lægra gengi brasilíska gjaldmiðilsins Real, ásamt því að þurrkar hafa ýtt undir orkuverð. Verðbólgan í Brasilíu mældist 10,3% í byrjun október.

Þá er forsetinn Jair Bolsonaro farinn að búa sig undir kosningar eftir rúmt ár en kosningaloforð hans, sem felast m.a. í auknum greiðslum úr velferðarkerfinu til hinna fátækustu, hafa valdið áhyggjum meðal fjárfesta um hækkandi verðbólgu.