Á þriðja ársfjórðungi 2020 voru tekjur af húsnæði í leigu á vefnum Airbnb miklu hærri en tekjur af íbúðum í langtímaleigu, bæði á Akureyri og Reykjavík. Á Akureyri voru tekjur af leigu á Airbnb rúmlega tvöfalt hærri og í Reykjavík voru tekjurnar helmingi hærri. Frá þessu er greint í Hagsjá Landsbankans.

Í Kópavogi voru tekjur af leigu á Airbnb 60% af tekjum af langtímaleigu og hlutfallið var 81% í Hafnarfirði, Álftanesi og Garðabæ (HÁG). „Sé litið aftur til fyrsta ársfjórðungs á síðasta ári sést að hlutfallið hefur nær alltaf verið yfir 100% á Akureyri og í Reykjavík en nærri því alltaf undir 100% í HÁG og Kópavogi,“ segir í Hagsjánni.

Meðaltekjur af þriggja herbergja íbúð í leigu á Airbnb á þriðja ársfjórðungi þessa árs voru hæstar á Akureyri eða um 340 þúsund krónur en næsthæstar í Reykjavík, 312 þúsund krónur. Meðaltekjur voru 173 þúsund í HÁG en 131 þúsund krónur í Kópavogi. Tekjumunur milli svæða skýrist að hlusta til af mismunandi nýtingu.

Nýtingin var langhæst á Akureyri eða 48%. Þar á eftir kom Reykjavík en nýtingin þar var tæplega þriðjungur. Til samanburðar var leiguverð á þriggja herbergja íbúð í Kópavogi, samkvæmt þinglýstum leigusamningum, að meðaltali 214 þúsund krónur á þriðja ársfjórðungi 2020. Leigan nam 214 þúsund krónum í HÁG og 208 þúsund krónum í Reykjavík en 160 þúsund á Akureyri.