Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í ræðu á landsþingi sambandsins á Hótel Natura í dag að ein mikilvægasta nýjungin í sveitarstjórnarlögunum sem tóku gild 1. janúar sl. væru ákvæði um kostnaðarmat. Ef fyrirsjáanlegt væri að tillaga að lagafrumvarpi, tillaga að stjórnvaldsfyrirmælum eða aðrar stefnumarkandi ákvarðanir af hálfu stjórnvalda ríkisins myndu hafa fjárhagsleg áhrif á sveitarfélög skyldi fara fram sérstakt mat á áhrifum þeirra á fjárhag sveitarfélaga.

„Við óttumst þó að það taki einhvern tíma fyrir ráðherra, ríkisstjórn og Alþingi að virða þetta ákvæði án undantekninga. Næstu daga og vikur munu mörg lagafrumvörp verða lögð fram og kynnt í ríkisstjórninni áður en þau fara til umfjöllunar á Alþingi og hjá þingnefndum. Í ljósi þess hefur sambandið minnt á þetta ákvæði með bréfi til forsætisráðherra og til allra formanna þingnefnda. Óskað er eftir því að forsætisráðherra tryggi að ákvæðið verði virt og framkvæmt," sagði Halldór í ræðu sinni.

Óvandvirkni á Alþingi

Alþingishúsið
Alþingishúsið
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)
Formaðurinn sagði að ráðuneyti, ríkisstjórnir og Alþingi hefðu tamið sér þau óvandvirku vinnubrögð að hlaða upp ólokinni frumvarpsgerð fram að síðustu tímamörkum. Því væri hætta á að þessi vinna færi ekki fram eins og lögin mæli fyrir um. Mörg mál færu í ggn eftir óvandaða og ómarkvissa umfjöllun

„Við þekkjum mörg vond dæmi um lagasetningu sem byggir á slíkum vinnubrögðum. Þeim verður að breyta. Hraði og taugaveiklun í tengslum við lagafrumvörp sem varða sveitarfélögin miklu mega ekki ráða för. Við viljum vanda okkur og gerum þess vegna þá kröfu að þeir sem eiga við okkur samskipti vandi sig einnig," sagði Halldór.