Greiningardeild Arion banka mælir með kaupum á hlutabréfum Icelandair Group í virðismati sem gefið var út á miðvikudag. Samkvæmt matinu er virðismatsgengi bréfanna 42 krónur á hlut, en lokagengi eftir 1,37% hækkun á markaði á fimmtudag var 35,02 krónur á hlut. Er virðismatsgengið því 19,9% hærra en markaðsgengi hlutabréfanna. Markaðsvirði Icelandair í gær var rúmir 174 milljarðar króna, en miðað við virðismatsgengið er það tæpir 209 milljarðar króna. Munurinn er tæpir 35 milljarðar króna.

Í matinu segir að gengi bréfa Icelandair sé nú nánast hið sama og fyrir um þremur mánuðum þegar síðasta virðismat greiningardeildarinnar var gefið út. „Engu að síður hafa skilaboðin frá félaginu verið jákvæðari en við reiknuðum með á tímabilinu. Uppgjör fjórða ársfjórðungs var betra en við áttum von á, leiðakerfið mun vaxa enn meira á þessu ári en áður hafði verið tilkynnt og EBITDA áætlun félagsins fyrir yfirstandandi ár er sterkari en við höfðum gert ráð fyrir,“ segir í matinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .