Fyrirtækið Metalogalva frá Portúgal átti lægsta tilboðið í stálmöstur þriggja háspennulína Landsnets, Kröflu­línu 4, Þeistareykjalínu 1 og Suðurnesja­línu 2. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Alls bárust fimmtán tilboð í möstrin og voru tólf þeirra undir kostnaðaráætlun.

Tilboð Portúgalska fyrirtækisins hljóðaði upp á, 3,2 milljónir evra, eða 465 milljónir íslenskra króna, sem er um 59% af kostnaðaráætlun.

Landsnet fer um þessar mundir yfir tilboðin og verður í framhaldi rætt við lægstbjóðendur. Gert er ráð fyrir að möstur Kröflulínu 4, frá Kröflu að Þeistareykjum, komi til landsins í sumar en möstur Þeistareykjalínu 1, frá Þeistareykjum að Bakka, og Suðurnesjalínu 2, milli Hafnarfjarðar og Rauðamels á Reykjanesi, verði afhent í byrjun næsta árs.