Forsvarsmenn íslensk-bandaríska nýsköpunarfyrirtækisins Carbon Recycling International ehf. (CRI) sem stofnað var árið 2006 reikna með að ljúka fjármögnun tilraunaverksmiðju á næstu. Stefnt er á að hefja framkvæmdir við verksmiðjuna í haust að því er fram kemur í Viðskiptablaðinu í dag. Verður hún reist við hlið raforkuvers HS Orku í Svartsengi.

Þarna er ætlunin að vinna koltvísýring úr jarðgufu og framleiða vetni með raforku frá verinu til að búa til metanól. K. C. Tran, framkvæmdastjóri CRI, segir að þetta verði fyrsta verksmiðjan í heiminum sem framleiðir metanól með þessum hætti. Hafa vísindamenn CRI fengið einkaleyfi á Íslandi á aðferðinni. Metanólið sem framleitt verður í Svartsengi verður notað til að blanda í bensín.

Búið að gefa leyfi fyrir tilraunaverksmiðju við Svartsengi og er verið að vinna uppkast að viljayfirlýsingu milli CRI og Grindavíkurbæjar um framhaldið.

K. C. Tran segir að náið sé unnið með íslenskum yfirvöldum sem og bæjaryfirvöldum í Grindavík og Reykjanesbæ.