Icelandair flutti tæplega 77 þúsund farþega í desember sl., sem er 18% fjölgun á milli ára. Þá fjölgaði farþegum Icelandair um 14% á síðasta ári.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningstölum frá Icelandair Group en heildarfjöldi farþega hjá Icelandair á síðasta ári nam tæplega 1,5 milljón, samanborið við tæplega 1,3 milljón farþega árið 2009.

Í tilkynningu Icelandair kemur fram að sætanýtingin á síðasta ári sé sú besta í sögu félagsins. Sætanýting félagsins á árinu nam 78,4%, sem er 3,4% aukning á milli ára. Árið 2009 var sætanýtingin um 75% og hafði að mestu staðið óbreytt í þrjú ár þar á undan. Rétt er að hafa í huga að flugframboð félagsins hefur rokkað nokkuð á milli ára og sætanýtingin ein gefur því ekki heildstæða mynd af farþegafjöldanum.

Flugframboðið hefur nú aukist eftir að verulega var dregið úr framboði í september 2008, mánuði áður en íslenska fjármálakerfið hrundi. Flugframboðið, og þar með fjöldi sæti, var síðan aukið um 15% á síðasta ári og til stendur til að auka framboðið um 17% á þessu ári. Næsta sumar mun Icelandair nota 13-14 Boeing 757 vélar í áætlunarflugi sínu en félagið stefnir að því að flytja 1,7 milljón farþega.

Farþegum Flugfélags Íslands fækkar um 6%

Farþegum Flugfélags Íslands, sem jafnframt er í eigu Icelandair Group, fjölgaði um 1% á milli ára í desember þegar félagið flutti um 24.200 farþega.

Farþegum félagsins fækkaði þó um 6% á milli ára á síðasta ári en alls flutti félagið rúmlega 343 þúsund farþega á árinu, samanborið við 365 þúsund árið 2009. Þá minnkaði sætanýting félagsins 0,5% á milli ára á síðasta ári.

Samdráttur í fraktflugi

Fraktflug á vegum samstæðunnar dróst einnig saman á síðasta ári en tvö fraktfélög eru í eigu samstæðunnar, Icelandair Cargo og Bluebird. Í desember dróst fraktflug saman um 8% á milli ára en þannig nemur samdrátturinn í fraktflugi um 4% á síðasta ári.

Þá dróst nýting hótelherbergja í eigu samstæðunnar örlítið saman á milli ára. Seldar gistinætur í desember jukust um 3% á milli ára en fækkaði þó um 1% á milli ára á árinu 2010.   Nýting flugflota í eigu Icelandair Group dróst lítillega saman á milli ára í desember eða um 1%. Hér er átt við allar vélar í eigu samstæðunnar, meðal annars vélar sem leigðar eru út á vegum Lofteidir Icelandic. Nýting flugflotans jókst þó um 1% á milli ára á síðasta ári.