Rússneska olíufélagið Rosneft mun greiða út sem nemur 7 milljörðum Bandaríkjadala, eða 890 milljarða króna í arð vegna ársins 2021. Er þetta hæsta arðgreiðsla í sögu rússnesks verðbréfamarkaðar en hagnaður félagsins sexfaldaðist á milli ára.

Þrátt fyrir aukna framlegð í ljósi hækkandi olíuverðs hefur reynst erfitt fyrir félagið að viðhalda sama framleiðslustigi og áður í skugga viðskiptaþvingana Vesturlanda, en síðan í aprílmánuði hefur framleiðsla dregist saman um u.þ.b. milljón olíutunna á dag. Bæði Bretar og Bandaríkjamenn hafa bannað innflutning á rússneskri olíu og þó Evrópusambandið hafi ekki enn lagt á sambærilegt bann hafa fjölmargir evrópskir einkaaðilar ákveðið að sniðganga rússneskan varning.

Félagið er í helmingseigu rússneska ríkisins og er skráð á verðbréfamarkað þar í landi. Breska olíufélagið BP á um 20% hlut í félaginu og voru gefnar út yfirlýsingar þegar stríðið braust út að breska félagið myndi selja eignarhlut sinn í því rússneska.