Bandaríska olíufélagið Exxon Mobil lauk síðasta ári með mesta hagnaði allra tíma hjá félaginu. Samkvæmt frétt Washington Post nam hagnaður félagsins á árinu 2008 samtals 45,2 milljörðum dollara eða um 5.147 milljörðum króna. Var það þrátt fyrir að hagnaður fjórða ársfjórðungs hafi verið þriðjungi minni en sama ársfjórðungs 2007.

Með lækkandi olíuverði undanfarna mánuði hefur hagnaður Exxon af framleiðslu á olíu og gasi snarlækkað. Hins vegar hefur aukinn hagnaður af olíuhreinsun og af olíudælum hjálpað til við að vinna að hluta upp hagnaðarminnkun af olíu og gas framleiðslunni. Þá má einnig nefna hagnað Chevron olíufélagsins af olíuhreinsun sem tífaldaðist á síðasta ársfjórðungi 2008. Hins vegar kynnti Royal Dutch Shell, stærsta olíufélag Evrópu tap á síðasta ársfjórðungi vegna mikilla fjárfestinga í innviðum félagsins. Hins vegar var hagnaður ársins í heild hjá Shell 26,3 milljarðar dollara.

Þó olíuverð hafi snarfalli  frá miðju síðasta ári, eða  úr 147 dollurum á tunnu og niður fyrir 40 dollara um áramót þá sló hagnaður Exxon á síðasta ársfjórðungi samt út allar spár sérfræðinga og endaði í 7,82 milljöðrum dollara, eða 1,55 dollurum á hlut. sem dæmi um gróða olíufélaganna þá voru samanlagðar sölutekjur olíufélaganna Exxon Mobil og Chevron á árinu 2008 meiri en af framleiðslu allra nema 16 þjóða heims samkvæmt upplýsingum Bloomberg.

Þrátt fyrir þennan ofsagróða olíufélagann á síðasta ári, hrannast nú upp óveðurblikur á himni olíuframleiðanda. Vegna efnahagskreppunnar sem nú ríður yfir heimsbyggðina hefur dregið verulega úr eftirspurn eftir olíu. Samtök olíuframleiðsluríkja innan OPEC (Organization of the Petroleum Exporting Countries) hafa dregið úr sinni framleiðslu.

Þó flest olíufélög reyni nú að draga úr kostnaði og leggi minni fjármuni í uppbyggingu, þá hyggst Exxon ekkert slá af sinni eyðslu. Í fyrra varði Exxon 26,1 milljarði dollara í uppbyggingu og ráðgerir að nota svipaða upphæð á þessu ári. Ráðgert er að taka átta nýja framleiðslustaði í gagnið á árinu 2009. Þar er um að ræða olíuframleiðslu í Malasíu, Azerbaijan og úti fyrir ströndum Vestur Afríku. Einnig gasframleiðsla í Quatar. Kenneth Cohen aðstoðarforstjóri Exxon er hvergi banginn og segir að viðskiptamódel félagsins sé hannað til að takast á við miklar sveiflur á markaði.