Kirkbi Invest A/S, fjárfestingarfélag Lego fjölskyldunnar, hagnaðist um 3,9 milljarða dala árið 2021, sem er methagnaður hjá félaginu. Hagnaður félagsins nam 930 milljónum dala árið 2020 og fjórfaldaðist því á milli ára. Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg .

Aukinn hagnaður Kirkbi skýrist annars vegar af aukinni afkomu leikfangaframleiðandans og hins vegar af miklum uppgangi á hlutabréfamarkaði. Gengi verðbréfasafns félagsins hækkaði um 23,3% á árinu, sem er talsvert hærra en markmið upp á 5-7% árlega hækkun.

Kirkbi á til að mynda hlut í ryksuguframleiðandanum Nilfisk Holding A/S, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 63% á árinu. Auk þess á Kirkbi hlut í fyrirtækinu ISS A/S, en gengi félagsins hækkaði um fimmtung á síðasta ári. Kirkbi er stærsti hluthafi beggja fyrirtækja.

Auðug fjölskylda

Stjórnarformaður Kirkbi er Kjeld Kirk Kristiansen, barnabarn Ole Kirk Christiansen stofnanda Lego. Kjeld er þriðji ríkasti Daninn, en samkvæmt Forbes er hann metinn á 8,1 milljarða dala. Sonur hans, Thomas Kirk Kristiansen, er stjórnarformaður Lego A/S. Hann er einnig metinn á 8,1 milljarða dala.

Hagnaður Lego Group, sem er í 75% eigu Kirkbi, nam 1,9 milljörðum dala á síðasta ári og jókst um þriðjung á milli ára. Aldrei hefur hagnaðurinn verið meiri hjá Lego en árið 2021. Tekjur félagsins jukust um 27% á milli ára og námu 8,1 milljörðum dala.

Sjá einnig: Metnir á 30 milljarða dali

Nýlega fjárfesti Kirkbi milljarði dala í tölvuleikjaframleiðandanum Epic Games, sem er einna þekktastur fyrir vinsælasta tölvuleik heims, Fortnite. Eftir fjármögnunina á Kirkbi 3% hlut í Epic, sem er metið á 31,5 milljarða dali.

Lego og Epic hafa jafnframt gert samning um að skapa svokallaðan „metaverse" heim, sérstaklega hannaðan fyrir börn. Tim Sweeney forstjóri Epic hefur sagt að fjármögnunin muni hraða uppbyggingu á „metaverse" heiminum sem Epic og Lego vilja skapa.