Goldman Sachs, stærsti fjárfestingabanki heims, tilkynnti í dag um 3,22 milljarða Bandaríkjadala hagnað á fjórða ársfjórðungi sem var nokkuð umfram meðalspá greinenda. Í Vegvísi Landsbankans segir að fjórða árið í röð setur Goldman hagnaðarmet á Wall Street.

Tekjur bankans jukust um 14% í 10,7 milljarða dala vegna aukinna tekna frá fjárfestingabankastarfsemi, hlutabréfaviðskiptum og hagnaðar af sölu orkuvera. Dótturfélag Goldman seldi á fjórðungnum 80% hlut í 14 orkuverum og nam hagnaðurinn af sölunni 800 milljónum dala. Goldman er í síauknu mæli að kaupa og selja hluti í fyrirtækjum til viðbótar við beina ráðgjöf við viðskiptavini.

Hækkanir á bandarískum mörkuðum Í Vegvísinum segir að bandarísk hlutabréf hafi hækkað í fyrsta sinn í þrjá daga í morgun eftir að Adobe Systems, stærsti framleiðandi í heimi á hugbúnaði, hækkaði spá sína um tekjur af sölu á Flash forritinu. Fimm hlutabréf hækkuðu á hver tvö sem lækkuðu á NYSE.

Hækkanirnar voru þó takmarkaðar af lækkunum á gengi fjármálafyrirtækja eftir að David Viniar, fjármálastjóri Goldman Sachs, sagði hann væri varkár á nánustu framtíð fjármálafyrirtækja. Vextir á millibankamarkaði með evrur lækkuðu í dag eftir að seðlabanki Evrópu jók fjármagn í umferð um 500 milljarða Bandaríkjadali  en ekki er fordæmi fyrir að svo hárri fjárhæð hafi verið veitt inn á markaðinn í einu lagi.

Uppgjör fjármálafyrirtækjanna framundan Goldman er annað fjármálafyrirtækið í röð á Wall Street til að birta uppgjör sitt en Lehman Brothers tilkynnti í síðustu viku um samdrátt í hagnaði. Morgan Stanley og Bear Stearns birta síðar í vikunni og spá greinendur tapi í fyrsta sinn í sögu félaganna. Merrill Lynch birtir svo í næsta mánuði, segir í Vegvísinum.