Hagnaður fjárfestingarbankans Goldman Sachs jókst á fjórða ársfjórðungi um 93% á ársgrundvelli, segir í frétt Dow Jones.

Hagnaður bankans nam 3,15 milljörðum Bandaríkjadala á fjórðungnum, eða 218,5 milljörðum króna og er það mesti hagnaður bankans á einum fjórðungi frá upphafi. Á sama tímabili í fyrra nam hagnaður bankans 1,63 milljörðum Bandaríkjadala.

Tekjur síðasta ársfjórðungi fjárhagsársins, sem lauk 24. nóvember, námu 9,41 milljörðum Bandaríkjadala, eða rúmum 650 milljörðum króna.