Hagnaður Sparisjóðabankans nam tæpum 800 milljónum króna á fyrri hluta ársins samanborið við 650 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Þetta er mesti hagnaður sem bankinn hefur náð á fyrri hluta ársins. Arðsemi eigin fjár á uppgjörstímabilinu var 43,4% (miðað við heilt ár) samanborið við 52,5% á sama tímabili í fyrra. Er þetta með því besta sem gerist meðal íslenskra fjármálafyrirtækja. Þetta kemur fram í tilkynningu sem bankinn sendi frá sér í gær.

Það sem helst skýrir afkomubatann milli ára er töluverð aukning hreinna vaxtatekna og mikill samdráttur í afskriftarreikning útlána. Hreinar vaxtatekjur jukust um 41% og námu tæpum 400 milljónum króna. Aðrar rekstrartekjur drógust saman um 2% og námu 950 milljónum króna.

Þróun á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum var bankanum afar hagstæð á tímabilinu og má rekja um 850 milljónir króna af tekjum bankans til þessa þáttar. Munar þar mest um hækkun á 5,8% eignarhlut bankans í fjárfestingarfélaginu Exista sem er stærsti hluthafinn í Bakkavör Group, Flaga Group og Kaupþingi banka og myndar nú kjölfestuna í félaginu Skipta sem keypti nýverið 98,8% hlutafjár í Landssímanum af ríkissjóði Íslands.

Skuldabréf í eigu bankans voru ekki eins gjöful, enda hefur orðið viðsnúningur á skuldabréfamörkuðum víða um heima og þeir einkennast ekki lengur af stöðugri lækkun ávöxtunarkröfu.

Sparisjóðabankinn er viðskiptabanki í eigu allra sparisjóðanna í landinu. Hann er þjónustubanki sparisjóðanna á sviði erlendra viðskipta lausafjárstýringar og fjármögnunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Stærsti hluthafinn í bankanum er Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (24,7%), Sparisjóður Hafnarfjarðar (14,8%) og Sparisjóður Vélstjóra (14,1%).