*

laugardagur, 30. maí 2020
Innlent 6. apríl 2020 07:15

Metið á 12 milljarða

Arctic Adventures var metið á 12 milljarða króna í ársreikningi ITF fyrir síðasta ár.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Framtakssjóðurinn Icelandic Tourism Fund, sem rekinn er af Landsbréfum, hagnaðist um 153 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaður saman um 186 milljónir króna á milli ára. Á síðasta ári seldi sjóðurinn eignarhlut í fimm félögum til Arctic Adventures í skiptum fyrir 21% eignarhlut í félaginu. Í ársreikningi ITF er hluturinn metinn á rúmlega 2,5 milljarða króna sem jafngildir heildarverðmæti fyrirtækisins upp á 12 milljarða króna.

Umræddar eignir voru metnar á um tvo milljarða í ársreikningi ITF fyrir árið 2018 og hækkaði verðmæti þeirra því um hálfan milljarð milli ára. Þess ber að geta að umrætt verðmat miðast við stöðu um síðustu áramót en gera má ráð fyrir því að virði félagsins auk annarra eigna sjóðsisn muni lækka töluvert þar sem öll fyrirtæki í ferðaþjónustu horfa upp á mikinn tekjumissi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar. 

Þá kemur einnig fram í ársreikningi sjóðsins að 34% eignarhlutur í ST Holding, sem á m.a. hvalaskoðunarfyrirtækið Special Tours og Hvalasafnið á Granda, sé metinn á 342 milljónir króna og hefur verðmæti hlutarins því lækkað um 295 milljónir eða um 46% milli ára.

Stikkorð: Adventures Arctic