Ferðakaupstefnan Mid-Atlantic hófst í gærkvöldi en hér er um að ræða stærsta ferðakaupstefna sem haldin er á Íslandi.

Kaupstefnan, sem nú er haldin í 21. skipti og hefur aldrei verið fjölmennari, er haldin á vegum Icelandair til þess að tengja saman kaupendur og seljendur ferðaþjónustu í þeim tilgangi að styrkja og auka ferðamannastraum til Íslands.

Fulltrúar á Mid-Atlantic eru nú tæplega 700 alls frá 21 þjóð. Að þessu sinni koma um 440 erlendir fulltrúar frá þeim löndum sem hafa mikil ferðaþjónustutengsl við Ísland í Evrópu og Norður-Ameríku og einnig frá fjarlægari mörkuðum. Á annað hundrað íslensk ferðaþjónustufyrirtæki, víðs vegar að af landinu, eru meðal þátttakenda og nýta þetta tækifæri til að kynna vöru sína og þjónustu, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Icelandair.

Þátttakendur eru fulltrúar ferðaskrifstofa, hótela, bílaleiga, skemmtigarða og margvíslegra annarra ferðaþjónustufyrirtækja og að auki taka þátt opinber ferðamálaráð ýmissa þeirra svæða og borga sem Icelandair flýgur til í Norður-Ameríku og Evrópu.

VB Sjónvarp leit við á kaupráðstefnuna í dag og ræddi við Helga Má Björgvinsson, framkvæmdastjóra sölu- og markaðssviðs Icelandair.