Árið 2012 var metár í farþegaumferð á Keflavíkurflugvelli. Alls fóru 2.380.214 flugfarþegar um flugvöllinn á árinu eða 12,7% fleiri en árið 2011. Útlit er fyrir að farþegum muni fjölga enn um nærri 10% á nýju ári.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Farþegar á leið til og frá landinu voru samtals 1.946.976 árið 2012 sem er 14,6% aukning frá árinu á undan og skiptifarþegar, sem hafa viðdvöl á flugvellinum á leið milli Evrópu og Ameríku, voru alls 433.238.

Í tilkynningunni kemur fram að framkvæmdir séu hafnar við endurbætur á Flugstöð Leifs Eiríkssonar til þess að auka afkastagetu og þægindi flugfarþega.

„Isavia hefur mætt mikilli farþegafjölgun undanfarin ár með markvisst auknum afköstum flugstöðvarinnar, t.d. með  fjölgun sjálfsinnritunarstöðva og breyttum afgreiðslusvæðum og biðsvæðum farþega til aukinna þæginda og skjótari afgreiðslu,“ segir í tilkynningunni.

„Í vor er fyrirhugað að taka í notkun ný biðsvæði fyrir farþega, fjölga brottfararhliðum og umtalsverðar breytingar verða einnig gerðar innandyra í flugstöðinni. Má þar nefna stærra svæði fyrir verslunar- og veitingaþjónustu við brottfarahlið í suðurbyggingu, stækkun biðsvæða og verulega fjölgun sæta sem auka mun þægindi og hraða afgreiðslu farþega til og frá borði.“

Þá kemur fram að fjárfesting í endurbótum sem hafnar voru s.l. haust og haldið verður áfram í vetur nemi vel á annan milljarð króna og áætlað er að um 100 manns fái vinnu við framkvæmdirnar. Fyrirhugað er að ljúka verkinu að mestu fyrir háannatíma í sumar.