Söngvarinn Michael Jackson, sem er nýlátinn, var sá skemmtikraftur sem náði að safna einhverjum mesta auði sem nokkur dægurlagasöngvari hefur eignast. En hann var líka duglegur að sóa þessum auði og óvíst er hve mikið er eftir.

Á tímabili námu eignir hans nálægt einum milljarði dollara, jafnvirði 127 milljarða dollara íslenskra króna á núverandi gengi, þar af skilaði rétturinn af lögum hans um 38 milljörðum króna og þar til viðbótar komu 42 milljarðar vegna tekna af tónleikum, útgáfu, tónlistarmyndböndum og varningi tengdum poppgoðinu.

Jackson var útsjónasamur fjárfestir þegar hann keypti af Sony réttinn að lögum bresku Bítlanna árið 1985 á 48 milljónir dollara (6 milljarða ísl. kr.) en þessi réttur er nú talinn virði eins milljarðs dollara í dag (127 milljarða kr.). Tíu árum síðar neyddist hann til þess að selja Sony aftur helminginn af sönglagarétti Bítlanna en hélt eftir hinum helmingnum sem reyndar var veðsettur upp í topp.

Jackson sóaði gríðarlegum fjármunum. Árið 1988 fór að halla undan fæti í fjármálum söngvarans. Þá keypti hann búgarðinn Neverland fyrir 10 milljónir dollara (2.100 millj. ísl.  kr.) en rekstur hans á mánuði kostaði yfir 30 milljónir króna. Miklir fjármunir fóru í ferðalög með einkaþotum og kostnað við hirð manna sem í kringum hann var, í lýtaaðgerðir og annan lækniskostnað og hver innkaupaferð í glæsiverslanir gat kostað tugi milljóna króna. Þá er ótalinn kostnaður vegna skilnaðarmála og margvíslegur lögfræðikostnaður vegna dómsmála og dómssátta m.a. vegna ásakana um kynferðislega misnotkun á börnum.

Þegar Jackson lést er talið að hann hafi skuldað jafnvirði 42 milljarða íslenskra króna. Vera kann að hann hefði getað borgað skuldir sínar með því að selja eignir og draga saman seglin í eyðslu. Hann kaus hins vegar að fara heldur þá leið að afla frekari tekna og skipulagði því tónleikahald í örvæntingarfullri tilraun til þess að láta enda ná saman. Talið er að tilhugsunin og kvíðinn sem því var samfara kunni að hafa flýtt fyrir dauða hans.

Byggt á greinum í The Daily Telegraph.