Michael Porter, prófessor við viðskiptafræðideild Harvardháskóla, hélt fyrirlestur í Háskólabíói í dag. Þar fjallaði Porter um jarðvarmann á Íslandi. Viðtökur við fyrirlestri hans voru afar góðar.

Porter sagði mikilvægt að Íslendingar hætti að horfa í baksýnisspegilinn og horfi fram á veginn.

Meðal þess sem Porter gagnrýndi hér á landi var regluverk orkuiðnaðarins sem hann sagði ómarkvisst. Þá sagði hann stefnu stjórnvalda í efnahagsmálum í molum eins og sakir standa í dag. Þó væru hér mikil tækifæri í jarðvarma og skyldum greinum.

Hann sagði að skortur á áreiðanlegum gögnum um orku hérlendis sé mikill og hér þurfi ítarlegri rannsóknir að fara fram. Þá þurfi Íslendingar að ákveða sig í hvað orkan eigi að fara.

Lifum enn um efni fram

Porter vakti athygli þegar hann kom hingað til lands árið 2006. Þá sagði hann að Ísland væri komið útaf sporinu sem væri að hluta til vegna ofhitnunar á hagkerfinu.

Á fyrirlestrinum í dag sagði Porter að Íslendingar væru enn að lifa um efni fram.