Microsoft hefur keypt íslensku hugbúnaðarlausnina LS Retail AX sem er byggð ofan á Microsoft Dynamics AX viðskiptalausnirnar. Það er íslenska fyrirtækið LS Retail ehf. sem hefur þróað lausnina sem Microsoft fær nú eignarrétt á og er þetta er ein verðmætasta hugbúnaðarsala í sögu Íslands segir í tilkynningu.

Þetta er jafnframt fyrsta meiri háttar fjárfesting Microsoft í hugbúnaði síðan fyrirtækið ákvað að beina athyglinni að fimm sérsviðum sem markhópum fyrir Microsoft Dynamics AX: Smásöluverslun, framleiðslu, dreifingu, opinbera geirann og sérfræðiþjónustu.

Hlutdeild Microsoft í smásöluverslun mun aukast

„Microsoft mun fjárfesta í að bæta við virkni í Dynamics AX viðskiptalausnina og við munum leggja sérstaka áherslu á smásöluverslun,“ segir Crispin Read, framkvæmdastjóri Microsoft Dynamics ERP í tilkynningu. „Það var vel íhuguð aðgerð að eignast þrautreynda lausn á borð við LS Retail AX og gerir Microsoft kleift að huga að frekari nýsköpun með samstarfsaðilum og viðskiptavinum.“

„Microsoft hefur hingað til lítið komið við sögu í smásölugeiranum en með þessum skynsamlegu kaupum má ætla að fyrirtækið nái að hasla sér þar völl. Þessi sala er til marks um gott orðspor LS Retail um allan heim og mun styrkja samstarf Microsoft og LS Retail, sem þó var gott fyrir,“ segir Gunnar Björn Gunnarsson, framkvæmdastjóri LS Retail ehf. „LS Retail mun eftir sem áður eiga og þróa öll sín kerfi sem byggð eru ofan á Microsoft Dynamics NAV auk þess að halda áfram að vinna í sérútfærslum fyrir AX lausnina sem seld var til Microsoft, bjóða þjónustu tengda henni og veita fræðslu fyrir markaðinn,“ bætir Gunnar Björn við.

Um LS Retail AX

LS Retail AX er öflug verslunarlausn sem byggð er ofan á viðskiptalausnina Microsoft Dynamics AX. Þessi samhæfða lausn býður upp á alla virkni sem krafist er í verslunarumhverfi og því engin þörf fyrir að bæta við það öðrum hugbúnaði. Notendaviðmót er það sama hvar sem er í kerfinu. Frá skrifstofu má stjórna öllum grunnþáttum rekstursins gegnum LS Retail AX og lausnin tengir saman afgreiðslukassa og Microsoft Dynamics AX. Þetta skapar LS Retail AX sérstöðu gagnvart öðrum lausnum á markaðnum.

LS Retail AX hentar vel meðalstórum og stórum fyrirtækjum á flestum sviðum smásöluverslunar, svo sem matvöru-, sérvöru- og tískuverslunum. Hægt er að setja kerfið upp fyrir misstórar einingar, allt frá einni verslun með einn afgreiðslukassa, til verslanakeðja sem jafnvel starfa í mörgum löndum segir í tilkynningu.