Forsvarsmenn Microsoft í Bandaríkjunum þykja ekkert sérlega kátir þessa dagana. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur lækkað risasekt sem það lagði á fyrirtækið í febrúar árið 2008 mun minna en vonast var til. Sektin hljóðaði upphaflega upp á 899 milljónir evra, jafnvirði rúmra 140 milljarða íslenskra króna, vegna brota á samkeppnislögum. Þetta var ein hæsta sekt sem lögð hefur verið á fyrirtæki vegna slíkra brota. Hún hefur nú lækkað um tæpa 40 milljónir evra í 860 milljónir.

Málið á rætur að rekja aftur til ársins 2004 þegar framkvæmdastjórnin sakaði Microsoft um að misnota sér markaðsráðandi stöðu sína til að ýta smærri samkeppnisaðilum út af markaðnum, m.a. með afspilunarforriti og fyrir að tengja netvafra sinn, Internet Explorere, með ósanngjörnun hætti við Windows-stýrikerfið. Forkólfar hjá Microsoft lofuðu í framhaldinu að næstu útgáfur stýrikerfisins yrðu móttækilegri fyrir forritum og vöfrum frá samkeppnisaðilum fyrirtækisins.

Bill Gates, annar stofnenda Microsoft og forstjóri fyrirtækisins á sínum tíma, brást harkalega við tilskipun framkvæmdastjórnar ESB og sagði þau „gelda“ Windows-stýrikerfið.

Fjórum árum síðar, þ.e. í upphafi árs 2008 hafði fyrirtækið ekki brugðist við tilmælum framkvæmdastjórnar ESB, sem s.s. hljóðuðu upp á að Microsoft deildi upplýsingum um hugbúnað sinn með samkeppnisaðilum svo þeir geti lagað hugbúnað sinn að Windows-stýrikerfinu. Það fékk því á sig risa sekt. Microsoft áfrýjaði niðurstöðunni.

Í niðurstöðum áfrýjunarnefndar var mótrökum Microsoft hafnað, að sögn bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal um málið.