Microsoft er tilbúið að hefja viðræður um kaup á Yahoo á ný ef skipt verður um stjórn Yahoo á aðalfundi félagsins 1. ágúst næstkomandi.

Carl Icahn, hluthafi í Yahoo, segir forstjóra Microsoft hafa sagt sér að ekki komi til greina að ræða samruna við núverandi stjórn Yahoo. Icahn hefur beitt sér fyrir því að ný stjórn taki við taumunum hjá Yahoo.

Tveir mánuðir eru liðnir síðan Microsoft tók til baka 47,5 milljarða Bandaríkjadala yfirtökutilboð sitt í Yahoo, eftir að stjórn Yahoo reyndist ekki vera samningsfús. Hluthafar Yahoo krefjast þess nú að fjárfesting sín beri arð, en stjórnendum fyrirtækisins hefur að mati margra þeirra ekki tekist að sýna fram á getu fyrirtækisins til að starfa sjálfstætt.