Íslenska upplýsingatæknifyrirtækið LS Retail var útnefnt „Microsoft Dynamics ISV of the year“ í Vestur-Evrópu á Microsoft World Wide Partner ráðstefnunni í New Orleans í liðinni viku.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá LS Retail en skammstöfunin ISV stendur fyrir Independent Software Vendor, þ.e. hugbúnaðarframleiðandi.

LS Retail komst einnig annað árið í röð í hinn svokallaða „Inner circle“ Microsoft-samstarfsaðila í viðskiptalausnum.

„Í samstarfsneti Microsoft eru yfir eitt þúsund hugbúnaðarframleiðendur í Evrópu og um allan heim. LS Retail tilheyrir þessum hópi og við fögnum því mjög að Microsoft skuli velja fyrirtækið sem hugbúnaðarframleiðanda ársins,“ segir Gunnar Björn Gunnarsson, framkvæmdastjóri LS Retail í tilkynningunni.

„Viðurkenningin er árangur af þrotlausri vinnu og ríkri áherslu á vörugæði. Hluta af velgengni LS Retail má einnig rekja til öflugs samstarfsaðilanets Microsoft en fyrirtækið hefur aflað 216 nýrra viðskiptavina á síðustu tólf mánuðum. LS Retail hefur sett sér mjög metnaðarfull markmið fyrir næstu átján mánuði og hyggst styrkja enn stöðu sína sem leiðandi söluaðili á viðskiptalausnum frá Microsoft Dynamics.“