Microsoft sagði í dag að fyrirtækið hafi haft samband við Yahoo til að reyna að komast að samkomulagi um nýjan samning, sem myndi ekki fela í sér að Microsoft keypti allt félagið. Eins og fjallað hefur verið um tókst stjórn Yahoo og Microsoft ekki að komast að samkomulagi um yfirtöku Microsoft á Yahoo og hættu félögin viðræðum fyrr í þessum mánuði.

Fjárfestirinn Carl Icahn beitir sér nú fyrir því að stjórn Yahoo verði skipt út og vill koma að nýjum stjórnarmönnum sem myndu hefja viðræður við Microsoft á nýjan leik, en hann telur líkt og margir hluthafar félagsins að stjórn Yahoo hafi tekið ranga ákvörðun þegar hún tók ekki yfirtökutilboði Microsoft. Komist Microsoft og Yahoo hins vegar að nýju samkomulagi gæti það bjargað stjórn Yahoo frá því að hrökklast frá völdum, að því er kemur fram í frétt Reuters.

Microsoft sagði ekki frá því hvers eðlis nýr samningur yrði, en viðurkenndi að fyrirtækin væru í sambandi á ný. Hins vegar tóku þeir fram að ekki væri víst að samningur yrði til upp úr viðræðunum.

Microsoft tók einnig fram að þeir muni halda áfram að leita leiða til að efla og víkka út starfsemi sína á internetinu og í auglýsingabransanum.