Miðaverð á Super Bowl leikinn, eða Ofurskálina, næsta sunnudag hefur lækkað að jafnaði um 15% á síðustu sex dögum. Leikurinn fer fram næstkomandi sunnudag, þegar New York Giants og New England Patriots keppa í úrslitaleik NFL deildarinnar í amerískum fótbolta.

Bloomberg fjallar um miðaverð á leikinn og hefur heimildir sínar frá aðilum sem selja aðgöngumiða sem miðaeigendur vilja selja. Leikurinn fer fram á Lucas Oil leikvanginum í Indianapolis. Meðalverð á miða er um 3.664 dollarar, jafnvirði um 450 þúsunda króna. Það hefur hins vegar fallið dag frá degi, síðan miðaverð náði hámarki þann 27. janúar síðastliðinn. Þá var meðalverð um 4.311 dollarar, samkvæmt frétt Bloomberg.

Super Bowl úrslitaleikurinn í fyrra sló öll áhorfsmet í Bandaríkjunum, þegar 111 milljón manns horfðu á leikinn.