Míkhaíl Sergeyevitsj Gorbatsjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, er látinn 91 árs að aldri. Gorbatsjov stóð fyrir miklum umbótum í átt til frelsis, gagnsæis og umburðarlyndis í stjórnartíð sinni sem að lokum urðu til þess að stórveldið liðaðist í sundur og leið loks formlega undir lok í upphafi 10. áratugarins.

Gorbatsjov lést á spítala í Rússlandi í gærkvöldi eftir langvarandi veikindi, en hann var síðasti eftirlifandi aðalritari og leiðtogi hins svokallaða Sambands sovéskra sósíalískra lýðvelda.

© epa (epa)

Leiðtogar um allan heim hafa vottað virðingu sína eftir að fregnirnar bárust. Antonio Guterres aðalritari Sameinuðu þjóðanna lýsti honum sem „einstökum ráðamanni“ og sagði heimsbyggðina hafa misst „alþjóðlegan leiðtoga og mikilmenni“ sem hafi beitt sér þrotlaust fyrir marghliða samningaviðræðum og friði. Ursula Von der Leyen forseti Evrópusambandsins sagði hann hafa „greitt götuna fyrir frjálsri Evrópu“, og Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði hann einstakan leiðtoga með sterka og skýra sýn.

Innleiddi umbætur sem leiddu til friðsamlegs falls Sovétríkjanna

Gorbatsjov tók við embætti aðalritara árið 1985 og réðist fljótlega í fordæmalausar stefnubreytingar sem þekktar voru sem Perestroika („umbætur“) og Glasnost („gagnsæi“). Á næstu árum samdi hann svo um gagnkvæmar aðgerðir í átt til afvopnunar og friðar við Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og síðar arftaka hans, George H.W. Bush.

Fundi hans með hinum fyrrnefnda hér á landi í Höfða árið 1986 er minnst sem sögulegum atburði sem leiddi af sér mikilvægan kjarnorkuafvopnunarsamning árið eftir og er einn stærsti alþjóðlegi viðburður sem átt hefur sér stað hér á landi.

Þessar breytingar leiddu að lokum til upplausnar hins fastheldna og óskilvirka efnahagskerfis sem einkennt hafði Sovétríkin frá upphafi, og þeirrar gerræðislegu samfélagsgerðar og stjórnkerfis sem því hafði fylgt.

Þegar gerðar voru uppreisnir í mörgum minni aðildarríkjum ríkjasambandsins neitaði Gorbatsjov að beita hervaldi líkt og fyrirrennarar sínir til að skerast í leikinn. Berlínarmúrinn féll í nóvember 1989 og rúmum tveimur árum síðar á jóladag 1991 sagði hann formlega af sér sem forseti Sovétríkjanna og afhenti þar með Borís Jeltsín forseta Rússlands völd þar.

Gorbatsjov voru veitt Friðarverðlaun Nóbels árið 1990 fyrir að hafa leitt alþjóðasamfélagið á þá braut samvinnu og friðar – sér í lagi í formi stórbættra samskipta og sambands Austurs og Vesturs – sem einkennt hafði árin á undan.