„Það vonast flestir til þess að hægt verði að meta eignir lífeyrissjóðanna á þessu ári, en afleidd áhrif af hruni bankanna eiga eftir að koma í ljós og það getur tekið 1-2 ár að koma fram,“ segir Kristinn Örn Sigurðsson, framkvæmdastjóri Sameinaða lífeyrissjóðsins, í samtali við Viðskiptablaðið.

Í ljósi þess að lífeyrisþegar í landinu standa frammi fyrir því að réttindi þeirra verða skorin niður vegna þess taps sem lífeyrissjóðir standa frammi fyrir í kjölfar hruns bankakerfisins, verður sú spurning enn áleitnari nú en áður hvort eðlilegt sé að bjóða upp á tvö lífeyriskerfi í landinu. Með tveimur kerfum er átt við kerfi með og án ríkisábyrgðar.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins starfar undir ríkisábyrgð en það sama gildir ekki um aðra lífeyrissjóði, og hefur það lengi verið deiluefni hvort réttlætanlegt sé að einn hópur í þjóðfélaginu búi við önnur lífeyriskjör en aðrir hópar.

Til þess að skýra málið betur má segja að það tap sem lífeyrissjóðir munu verða fyrir vegna mikils falls verðbréfa og annarra eigna mun án efa skerða réttindi sjóðfélaga en ekki þeirra sem eru með lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR).

Viðskiptablaðið ræddi við marga sérfræðinga í lífeyrismálum í gær og leitaði eftir betri innsýn í málið.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag.

Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .