Kaup innlendra aðila á erlendum verðbréfum námu tæpum 16 milljörðum króna umfram sölu á slíkum bréfum í október, að sögn greiningardeildar Glitnis.

?Er stærstur hluti þessara nettókaupa tilkominn vegna viðskipta með hlutabréf í einstökum fyrirtækjum en nettókaup í fyrirtækjum námu 14,5 milljörðum króna meðan ríflega milljarðs nettósala var í hlutabréfasjóðum í mánuðinum,? segir greiningardeildin.

Nettókaup á erlendum skuldabréfum voru 2,4 milljörðum króna. ?Það sem af er ári nema nettókaup á erlendum verðbréfum tæpum 118 milljörðum króna en til samanburðar voru nettókaup alls 124 milljarða króna á síðasta ári.

Hraður vöxtur hefur verið í nettókaupum erlendra verðbréfa undanfarin ár en miðað við ofangreindar tölur lítur út fyrir að vöxturinn verði hóflegur þetta árið en kaupin eru engu að síður umtalsverð,? segir greiningardeildin.

Hún segir að kaup á erlendum verðbréfum hafi sveiflast mikið milli mánaða undanfarið og sker þetta ár sig nokkuð úr hvað þetta varðar. ?Líklegt er að það sé vegna útrásar íslenskra fyrirtækja, því þótt reynt sé að gera greinarmun á hlutafjárkaupum til beinnar og óbeinnar fjárfestingar eru líkur á að einhver hluti áhrifafjárfestingar hafni í ofangreindum tölum.

Í nýlegu riti frá Seðlabankanum um þróun erlendrar verðbréfaeignar kemur fram að íslenskir lífeyrissjóðir voru stærstu eigendur erlendra verðbréfa í árslok 2005 en hins vegar varð gríðarleg aukning í eign bankanna á slíkum bréfum á því ári, sem styður ofangreinda skoðun,? segir greiningardeildin.