*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 1. desember 2019 14:23

Mikið undir í mars

Miklir fjárhags- og knattspyrnulegir hagsmunir verða undir þegar íslenska karlalandsliðið leikur umspilsleiki í mars næstkomandi.

Ástgeir Ólafsson
Kolbeinn Sigþórsson, sekúndubrotum áður en hann skoraði sigurmarkið á móti Englendingum í Nice.
epa

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu mun í mars næstkomandi leika tvo umspilsleiki sem munu skera úr um hvort liðið kemst á þriðja stórmótið í röð. Nú mun umspilið fara fram með breyttu fyrirkomulagi. Fyrir EM 2016 mættust þjóðir sem lent höfðu í þriðja sæti í sínum undanriðlum og var leikið heima og að heiman þar sem úrslit úr báðum viðureignum skáru úr um hvor þjóðin fór á lokamótið.

Nú verður hins vegar leikið í umspili Þjóðardeildarinnar þar sem Ísland mun mæta Rúmenía þann 26. mars en leikurinn mun fara fram á Laugardalsvelli takist að koma honum í leikhæft horf í mars. Takist Íslandi að leggja Rúmena að velli mun landsliðið svo mæta Ungverjalandi eða Búlgaríu í hreinum úrslitaleik um hvor þjóðin fari á EM en sá leikur mun annaðhvort fara fram í Búdapest eða Sofiu.

Það er því ljóst að mikið er undir í umspilsleikjunum í mars. Fyrir það fyrsta myndi það gleðja margan Íslendinginn að geta nýtt sumarfríið í að fylgjast með fótbolta á meginlandinu. Fari Ísland alla leið munu leikir liðsins fara fram í München og í Búdapest þar sem liðið mun leika í Friðli en fyrir liggur að Þjóðverjar verða í þeim riðli. Fyrir utan það er svo einnig mikið undir fjárhagslega við að komast inn á mótið en EM 2016 og HM 2018 voru KSÍ einstaklega gjöful.

Greiðslurnar hækka  

Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur nú þegar hækkað verðlaunafé fyrir EM 2020 síðan fyrir fjórum árum. Fyrir það eitt að komast inn á mótið fær hvert knattspyrnusamband greiddar 9,25 milljónir evra eða um 1,26 milljarða króna en upphæðin fyrir að komast inn á mótið hefur hækkað um 1,25 milljónir evra frá 2016. Greiðslur fyrir sigur eða jafntefli hafa svo verið hækkaðar um helming frá síðasta móti en nú fást 1,5 milljónir evra fyrir hvern sigurleik eða um 136 milljónir króna og 750 þúsund evrur fyrir jafntefli eða um 102 milljónir króna.

Fyrir að komast í 16-liða úrslit fást svo 2 milljónir evra, um 272 milljónir króna, 3,25 milljónir evra fást fyrir að komast í 8-liða úrslit og 5 milljónir evra fyrir að komast í undanúrslit. Þá mun liðið sem lendir í öðru sæti fá 7 milljónir evra og sigurvegarinn mun svo fá 10 milljónir evra eða rúmlega 1,3 milljarða króna. Upphæðirnar fyrir hvert stig útsláttarkeppninnar hafa hækkað frá hálfri milljón evra til 2 milljóna fyrir hvert stig frá árinu 2016.

Þess má geta að lið fær greitt fyrir hvert stig keppninnar fyrir sig sem þýðir að liðið sem vinnur mótið fær einnig greitt fyrir að komast í hinar umferðir útsláttarkeppninnar. Hæsta upphæð sem lið getur unnið sér inn eru 34 milljónir evra, eða ríflega 4,6 milljarðar króna en til þess þarf að vinna alla leikina í riðlakeppninni og vinna svo mótið sjálft en hæsta mögulega upphæð hefur hækkað um 7 milljónir evra frá árinu 2016.

Eins og frægt er orðið komst Ísland alla leið í 8-liða úrslit á EM 2016 eftir hinn ógleymanlega sigur á Englendingum í Nice í 16- liða úrslitum en í riðlakeppninni vann liðið Austurríki og gerði auk þess jafntefli við Ungverjaland og Portúgal. Fyrir árangurinn fékk Ísland 14 milljónir evra eða um 1,9 milljarða króna á gengi dagsins í dag. Myndi Ísland ná þeim ótrúlega árangri að endurtaka leikinn frá 2016 fengi KSÍ greiddar 17,5 milljónir evra eða tæplega 2,4 milljarða króna.

Myndi Ísland að ná að fara á EM og komast í 16-liða úrslit með sama stigafjölda og síðast myndi liðið fá 14,25 milljónir evra eða rúmlega 1,9 milljarða króna. Takist liðinu einungis að komast á mótið og myndi sem dæmi einungis ná einu jafntefli fengi KSÍ 10 milljónir evra sem eru um 1.360 milljónir króna. Það er því ljóst að til mikils er að vinna í mars, bæði knattspyrnulega og fjárhagslega séð.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér