Eins og tölurnar sýna þá er mikil aukning í nýskráðum atvinnubílum á síðasta ári og það sem af er þessu ári,“ segir Þórhildur Elínardóttir, samskiptastjóri Samgöngustofu.

„Það hafa ekki verið svona miklar nýskráningar á atvinnubílum síðan fyrir efnahagshrun. Eftir hrun var ládeyða, en frá 2011/2012 hefur verið vöxtur í nokkrum flokkum. Árið 2014 jukust nýskráningar svo umtalsvert sem getur endurspeglað meiri þrótt í atvinnulífinu. Einnig má ætla að aukinn fjöldi ferðamanna til landsins spili stórt hlutverk þegar kemur að fjölda nýskráninga hópbifreiða.“

Mikil aukning í hópbifreiðum

,,Nýskráningum hefur fjölgað jafnt og þétt í mörgum flokkum atvinnubíla. Ef við skoðum sendibíla þá sést svipuð þróun. Jafn vöxtur frá 2011/2012 og stórt stökk árið 2014. Ef fyrstu tveir mánuðir hvers árs eru bornir saman, þá hafa nýskráningar sendibíla tvöfaldast milli áranna 2015 og 2016. Mikla aukningu má einnig sjá í flokkum hópbifreiða. Fleiri stórar hópbifreiðar hafa verið fluttar inn það sem af er árinu 2016 heldur en allt árið 2011. Að líkindum tengist þetta fjölgun erlendra ferðamanna,“ segir Þórhildur.

Hún bendir á að hægari en þó stöðuga þróun megi sjá í nýskráningum vörubifreiða. ,,Árin 2005- 2007 var mikið nýskráð en tölur síðasta árs ná hvergi þeim fjölda. Engu að síður hefur nýskráningum einnig fjölgað í þessum flokki undanfarin ár. Samanlagt má segja að árið 2016 fari vel af stað í öllum flokkum ef miðað er við fyrstu tvo mánuði ársins. Rétt er þó að hafa í huga að með fleiri bifreiðum eykst umferðin og þar með einnig ýmsar áskoranir sem tengjast m.a. samgönguöryggi,“ segir Þórhildur enn fremur.