Farþegar Icelandair í apríl voru rúmlega 117 þúsund og fjölgaði um 13% frá því í apríl í fyrra en þá voru þeir 104 þúsund. Sætanýting félagsins í mánuðinum var 78% og hækkaði um 7 prósentustig frá fyrra ári segir í tilkynningu félagsins.

Frá áramótum hefur farþegum Icelandair fjölgað um 5% og eru tæp 370 þúsund talsins. Sætanýting hefur batnað um 2 prósentustig og var 70% á fyrstu fjórum mánuðum ársins.

Farþegum Flugfélags Íslands í innanlandsflugi fjölgaði um 3% í apríl og voru tæplega 28 þúsund. Þeim hefur fjölgað frá áramótum um 8,0%

Fluttum tonnum Icelandair Cargo fjölgaði um 12% frá fyrra ári og voru 3.555 í mánuðinum. Þeim hefur fjölgað á fyrstu fjórum mánuðum ársins um 13%

Fartímum (block-hours) í alþjóðlegu leiguflugi Loftleiða-Icelandic fækkaði um 11% í apríl, en hefur fjölgað um 18% frá áramótum.

"Það er mjög ánægjulegt að sjá þessa fjölgun farþega og aukna sætanýtingu Icelandair á fyrstu fjórum mánuðum ársins. Bókunarútlitið fyrir sumarið er sömuleiðis gott, einkum á íslenska markaðinum og ferðamannamarkaðinum til Íslands. Framboð Icelandair í ár er svipað og í fyrra. Við erum líka að sjá góða aukningu hjá Flugfélagi Íslands, Icelandair Cargo og Loftleiðum-Icelandic. Í tölunum má greina nokkurn mun á mars og apríl, sem einkum skýrist af því að páskarnir voru í mars í fyrra, en í apríl í ár," segir Jón Karl Ólafsson, forstjóri Icelandair Group, í tilkynningu félagsins.