Gengi hlutabréfa hefur hækkað mikið í Kauphöllinni það sem af er degi í talsverðri veltu. Gengi hlutabréfa Eimskips og Marel hefur hækkað mest eða um rúm þrjú prósent. Gengishækkunin á hlutabréfamarkaði hér er svipuð og hún var á erlendum mörkuðum í gær. Markaðir á meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum hafa róast nokkuð síðan þá.

Af einstökum félögum má nefna að gengi bréfa Icelandair Group hefur hækkað um 2,42%, Haga-samstæðunnar um 1,96%, fasteignafélagsins Regins um 1,36% og Vodafone um 0,92%.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 2,04% og stendur hún í 1.094 stigum. Vísitalan hefur ekki verið hærri síðan hún tók gildi á Nýársdag árið 2009. Upphafsgildi hennar þá nam 1.000 stigum. Veltan á hlutabréfamarkaði nemur rétt rúmum einum milljarði króna það sem af er.