Hagnaður Landsbankans fyrir skatta og virðisrýrnun viðskiptavildar nam 23,3 milljörðum króna samanborið við 14,4 milljarða króna fyrir sama tímabili á fyrra ári. Hagnaður eftir skatta nam 16 milljörðum króna og arðsemi eigin fjár eftir skatta var 48% á tímabilinu.

Hreinar vaxtatekjur bankans námu 15,7 milljörðum króna samanborið við 10,1 milljarða króna fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2004 og jukust þær um 55%.

Hreinar þjónustutekjur námu 12,0 milljörðum króna og jukust um 97% eða 5,9 milljarða króna samanborið við fyrstu níu mánuði fyrra árs. Vaxtamunur lækkaði um 0,4 prósentustig eða úr 2,6% í 2,2%.

Gengismunur og fjárfestingatekjur námu 13,9 milljörðum króna samanborið við 12,0 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2004.

Tekjur af erlendri starfsemi jukust um 252% og námu 6,7 milljörðum króna á fyrstu 9 mánuðum ársins 2005 samanborið við 1,9 milljarð króna fyrir sama tímabil á fyrra ári.

Hreinar rekstrartekjur jukust um 47% eða 13,3 milljarða króna og námu 41,6 milljarði króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2005.

Kostnaðarhlutfall bankans var 33% á tímabilinu.

Virðisrýrnun útlána og krafna nam 4,4 milljörðum króna.