Gengi hlutabréfa Marels hefur lækkað umtalsvert það sem af er degi í Kauphöllinni, en um klukkan 13:30 höfðu bréf fyrirtækisins lækkað um ein 5,3% Áhrif þessa á Úrvalsvísitölu Kauphallarinnar eru þau að hún hefur lækkað um tæp 2,4%.

Marel skilaði ársfjórðungsuppgjöri í gær. Þrátt fyrir að hagnaður fyrirtækisins eftir skatta hafi numið um einum milljarði króna og verið töluvert yfir afkomu Marels á sama tíma í fyrra, var afkoman undir væntingum og því hefur gengi bréfa fyrirtækisins lækkað. Velta með bréf Marels nam um 136 milljónum króna um klukkan 13:30 í dag, en heildarvelta í Kauphöll var þá um 225 milljónir.