Vísitala aðallista Kauphallarinnar hefur lækkað mikið það sem af er degi og kl. 10.40 hafði hún fallið um 2,6% eða liðlega 134 stig. Engin hlutabréf hafa hækkað í verði en bréf FL Group hafa lækkað um 4,28%.

Lækkun á verði hlutabréfa er í takt við lækkun á mörkuðum annarsstaðar í Evrópu og er búist við að hlutabréfamarkaðir verði óstöðugir á komandi vikum.

Innlendir sérfræðingar búast við að Seðlabankinn eigi eftir að hækka stýrivexti enn frekar en hugsanlegt er að vextir bankans breytist 6. júlí nk. þegar Peningamál koma út. Verðbólga síðustu 12 mánuði hefur verið langt yfir viðmiðunarmörkum Seðlabankans eða 8%. Stýrivextir eru nú 12,25% en greiningardeild Glitnis banka telur að þeir verði orðnir 13% fyrir lok árs. Að öðru óbreyttu er neikvætt samband milli vaxta og hlutabréfaverðs.

Lækkun hlutabréfa:
FL Group -4,28%
Landsbanki -3,29%
Dagsbrún -3,06%
KB banki -2,65%
Bakkavör -2,51%

Fyrir stundu hafði FTSE 100 vísitalan lækkað um 2,24%, Cac í Frakklandi um 2,15% og Dax í Frankfurt um 1,90%.

Sérfræðingar eru almennt sammála um að helstu seðlabankar heims muni hækka stýrivexti á næstunni vegna aukinnar verðbólgu. Samkvæmt mati Bloomberg fréttaþjónustunnar er búist við að framleiðsluverð í Bandaríkjunum hafi hækkað um 4,3% í maí miðað við sama tíma í fyrra. Þá benda tölur til þess að neysluverð í Bandaríkjunum hafi hækkað um 3,9%.