Hlutabréf hækkuðu í Asíu í dag en talið er að hækkun hráefnisverð hafi nú náð nokkru hámarki og muni minnka verðbólguþrýsting að mati Bloomberg fréttaveitunnar.

Þannig  hækkaði MSCI Kyrrahafsvísitalan um 1,3% en vísitalan lækkaði um 2,7% í síðustu viku.

Í Japan hækkaði Nikkei vísitalan um 2%, í Singapúr hækkaði Straits vísitalan um 0,5% og í Ástralíu hækkaði S&P 200 vísitalan um 0,8%.

Í Hong Kong lækkaði Hang Seng vísitalan hins vegar um 0,1% en í Kína varð mesta lækkunin þar sem CSI 300 vísitalan hrundi um 5,2% og hefur því engin vísitalan lækkað jafn mikið á árinu að sögn Bloomberg.

Eins og fyrr segir telur Bloomberg fréttaveitan og hefur eftir viðmælendum sínum að hráefnisverð muni að öllum líkindum ekki hækka mikið  umfram það sem það er nú sem muni leiða til þess að „meiri regla“ kemst á fyrirtæki og markaði eins og einn viðmælandinn orðar það.

Þó telja viðmælendur fréttaveitunnar að átök milli Georgíu og Rússlands muni leiða til hækkunar olíuverðs en þó er samhljómur um að sú hækkun verði ekki langvarandi að sögn Bloomberg.