Unnið er að því að þriðja endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á efnahagsáætlun Íslands fari fram að loknum sumarleyfum starfsmanna sjóðsins. Því er áætlað að hún fari fram snemma í haust. Sú óvissa sem skapast hefur vegna dóma Hæstaréttar um afnám gengistryggingar setur þá endurskoðun í mikið uppnám, enda miðar efnahagsáætlun AGS við að lækka skuldir ríkissjóðs. Eins og staðan er í dag þá ríkir algjör óvissa um hvort, og þá hversu mikið, muni falla á ríkissjóð vegna afnáms gengistryggingar á lánum. Ef skuldir ríkissjóðs aukast um að minnsta kosti 100 milljarða króna, sem talið er að þær muni gera verði miðað við samningsvexti áður gengistryggðra lána, þá mun það þýða að endurskoða þarf alla efnahagsáætlun AGS.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að ráðamenn telji  ekki að útkljá þurfi öll mál varðandi gengislánin áður en þriðja endurskoðun AGS geti farið fram en að meiri vissa þurfi að ríkja um áhrif þeirra á bankakerfið og ríkissjóð en nú er til staðar. Á meðan alger réttaróvissa ríkir um uppgjör lána sem áður voru gengistryggð þá er sú vissa ekki fyrir hendi varðandi Icesave-málið sem seinkað hefur síðustu tveimur endurskoðunum AGS á efnahagsáætlun Íslands. Er það ekki talið muna trufla hana í þetta sinn.

-Nánar í Viðskiptablaðinu