Skuldir heimilanna við innlánsstofnanir hafa aukist um 83 milljarða króna frá áramótum að því er fram kom í gögnum sem Seðlabankinn birti í gær. Skuldir heimilanna við innlánsstofnanir námu 390 milljörðum króna í lok apríl síðastliðinn eða um 5,2 m.kr. á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Þessi mikla aukning er að mestu vegna skuldbreytingar heimilanna á íbúðalánum hjá Íbúðalánasjóði. Hér er því ekki um hreina skuldaaukningu að ræða hjá heimilunum heldur um tilfærslu á milli lánadrottna.

Skuldir fyrirtækja hjá innlánsstofnunum námu 903 milljörðum króna í lok apríl og höfðu þá aukist um ríflega 95 ma.kr. frá áramótum. Hér er um að ræða bæði verðtryggð lán og gengisbundin. Þá hefur líka verið mikill vöxtur í lánum til erlendra aðila en lán innlánsstofnanna til þeirra stóðu í 285 mö.kr. í lok apríl síðastliðin og höfðu þá aukist um 90 ma.kr. frá áramótum. Í aprílmánuði einum jukust útlán þessi um 37 ma.kr.