Á dögunum hóf ítalska fjölskyldufyrirtækið og einn af stærstu framleiðendum á gönguskóm í heiminum, Asolo, að selja vöru sína hér á landi í samstarfi við Icewear. Viðskiptaveldið, sem í dag spannar 42 viðskiptalönd, á rætur sínar að rekja til smáþorps á Ítalíu sem var hernumið af Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni.

Að sögn forstjóra fyrirtækisins, Luca Zanatta, hafa miklar breytingar átt sér stað í hinum alþjóðlega viðskiptaheimi sem hann segist þó fremur reyna að líta á sem tækifæri en hindrun þegar litið er til framtíðar.

Aukinn ferðamannastraumur til Íslands skiptir sköpum

Vörur Asolo eru seldar í 42 löndum víðs vegar um heiminn en stærsta markaðssvæði fyrirtækisins er í Bandaríkjunum. „Heildarvelta okkar í ár er í kringum 25 milljónir evra en Bandaríkin eru að skila 35% af þeirri veltu. Aðrir mikilvægir markaðir eru svo Frakkland, Ítalía, Bretland, Þýskaland, Japan og Rússland meðal annarra markaða,“ segir Zanatta

Aðspurður segir hann í raun engin stór markaðssvæði sem fyrirtækið hefur ekki enn komist inn á. „Það má orða það svo að við erum með aðkomu á öllum mikilvægustu mörkuðunum, annaðhvort í gegnum dótturfyrirtæki okkar eða í gegnum okkar eigin skrifstofur. Reyndar komum við á breskan markað í júlí, hálfum mánuði eftir að Bretar kusu í þjóðaratkvæðagreiðslu að yfirgefa Evrópusambandið og því eins og gefur að skilja enn nokkur óvissa uppi hvað það svæði varðar.“ segir Zanatta.

Hann segir kanadískan markað enn sem komið er hafa reynst fyrirtækinu nokkuð erfiður. „Ég tel að þeir erfiðleikar séu hins vegar ekki til komnir vegna vörunnar heldur einfaldlega vegna markaðarins sjálfs og vegna þess að okkur hefur ekki tekist að finna góðan samstarfsaðila þar í landi. Ísland er að mínu mati frábært tækifæri fyrir okkur. Ferðamannastraumurinn hingað að undanförnu er ótrúlegur miðað við það sem áður var en samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef undir höndum þá jókst fjöldi ferðamanna hér á landi um 34% á milli ára. Til marks um mikilvægi þess fyrir okkur þá get ég bent á að á ferðalagi mínu hingað varð ég þess var að 50% af þeim ferðamönnum sem voru í flugvélinni voru í gönguskóm. Ég tel því óhætt að segja að íslenskur markaður gæti verið mjög áhugaverður og arðbær fyrir okkur í framtíðinni,“ segir Zanatta.

Ánægður með samstarfið við Icewear

Zanatta viðurkennir að aukinn ferðamannastraumur hafi veriðmikilvæg breyta þegar Asolo byrjaði byrjaði að skoða íslenskan markað en að auk segir hann mikilvægt að vera með góða tengiliði hér á landi.

Nánar er fjallað um málið Í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.