Velta með bréf Marel hefur numið um 2,4 milljörðum króna það sem af er degi, en gengi bréfa félagsins hefur hækkað um 1,52%.

Þessi mikla velta skýrist af því að samhliða kaupum Marel á fyrirtækinu MPS meat processing systems (MPS) hafa stjórnendur og hluthafar síðarnefnda fyrirtækisins keypt stóra hluti í Marel samkvæmt kaupsamningi sem gerður var milli fyrirtækjanna.

Þá keyptu hluthafar og stjórnendur MPS 10,8 milljón hluti í Marel á genginu 213 krónur á hlut. Það eru um 2,3 milljarðar króna. Gengi bréfanna á markaði er nú 234,5 krónur.

Eins og tilkynnt var þann 21. nóvember á síðasta ári gekk Marel frá langtímafjármögnun til fimm ára, um 670 milljónir evra eða 93,8 milljarða íslenskra króna. Samhliða fjármögnuninni var þá tilkynnt um kaup Marel á MPS.

Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir að með kaupunum hafi Marel nú stækkað verulega við sig og bjóði þá upp á heildarlausnir í kjötvinnslu auk þeirra lausna sem fyrirtækið hefur boðið upp á í fiskvinnslu.