Eftir miklar verðsveiflur innan dags endaði Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands á því að hækka um 0,25% í umtalsverðum viðskiptum í dag. Gengi Trygginamiðstöðvarinnar lækkaði um 1,93%, Regins um 1,69% og Fjarskipta um 0,45%. Á hinn bógin hækkaði gengi bréfa Atlantic Airways um ein 19,63%, en það var að vísu í viðskiptum sem námu aðeins rúmri hálfri milljón króna. Þá hækkaði gengi Haga um 0,72% og Össurar um 0,56%.

Eins og áður segir var velta á hlutabréfamarkaði óvenjumikil og nam tæpum 3,3 milljörðum króna. Mikil viðskipti voru með bréf tryggingafélaganna tveggja, TM og VÍS, en mest var veltan í krónum talið með bréf Icelandair group og nam hún 988,6 milljónum króna.

Fjöldi viðskipta var hins vegar mestur í viðskiptum með bréf TM og voru þau 186 talsins í 745,2 milljóna króna viðskiptum. Þýðir það að meðalfjárhæð viðskipta nam rétt rúmum fjórum milljónum króna. Heildarvelta með bréf VÍS nam 805,8 milljónum króna í 121 viðskiptum og meðalfjárhæðin var því 6,7 milljónir. Til samanburðar var fjöldi viðskipta með bréf Icelandair 59 og meðalfjárhæð því um 16,8 milljónir króna. Þá var meðalfjárhæð viðskipta með bréf Haga um 26,7 milljónir króna. Meðalfjárhæðir í viðskiptum með bréf sumra annarra félaga í kauphöllinni var lægri en hjá tryggingafélögunum tveimur, en veltan var sömuleiðis mun minni þar.