Talsvert líf verið í Kauphöll Íslands að undanförnu, en venjulega er frekar dauft á þeim bænum yfir sumarmánuðina. Peningarnir sem losna við yfirtöku Novators á Actavis hafa án efa talsverð áhrif á veltu annarra skráðra félaga í Kauphöllinni.

Fram kemur í Vegvísi Landsbankans að heildarvelta með hlutabréf frá áramótum og til lokunar markaða á föstudaginn síðastliðinn nam alls um 1.613 milljörðum króna. Á sama tíma nam veltan um 1.117 milljörðum, og er því um talsverða aukningu að ræða milli ára.

Velta hlutabréfa frá því að formlegt yfirtökutilboð í Actavis var lagt fram fyrsta dag júnímánaðar hefur numið 374 milljörðum króna, en á sama tímabili í fyrra nam veltan um 153 milljörðum.

Novator bauð 1,075 evrur á hlut í yfirtökutilboði sínu, og samkvæmt því verði var félagið metið á 298 milljarða króna. Hins vegar átti fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar þegar tæplega tvo fimmtu hlutafjár í Actavis og því fara um 182 milljarðar til þeirra hluthafa sem stóðu ekki að tilboðinu. Þessir peningar hafa sett mikinn þrýsting á hlutabréfaverð í Kauphöllinni og í kjölfarið hefur Úrvalsvísitalan slegið hvert metið á fætur öðru.

Bankarnir eru veigamestir sem fyrr þegar kemur að heildarveltu í Kauphöllinni. Velta með bréf bankanna frá áramótum nam um 1.180 milljörðum króna, sem er um 73% af heildarveltu. Langmest velta hefur verið með bréf Glitnis, eða um 444 milljarðar á árinu.

Sala stórra hluthafa á eignarhlutum sínum í bankanum vegur þungt í þeirri tölu, en veltan með bréf félagsins nam til að mynda 84 milljörðum á einum degi í vor þegar Milestone, fjárfestingafélag Karls og Steingríms Wernerssona, seldi eignarhlut ásamt öðrum stórum hluthöfum.