Mikill áhugi hefur verið erlendis á leigu á olíubirgðastöð NATO í Helguvík og olíutönkum á Keflavíkurflugvelli, að sögn Guðrúnar Gunnarsdóttur, verkefnastjóra hjá Ríkiskaupum. Tilboð í leiguna verða opnuð um miðjan september nk. Um er að ræða samtals 14 eldsneytistanka sem samtals geta geymt 127 þúsund rúmmetra af eldsneyti.

„Sá sem hlýtur reksturinn skuldbindur sig til að útvega Keflavíkurflugvelli flugvélaeldsneyti en má síðan nota umframgeymslugetu eins og hann vill. Eldsneytisþörf flugs um Keflavíkurvöll er um 200 milljónir lítra á ári, þannig að viðkomandi getur notað afganginn af plássinu í spákaupmennsku með flugvélaeldsneyti,“ segir hún. Þegar auglýst var eftir tilboðum í rekstur olíubirgðastöðvarinnar var sérstaklega tekið fram að rekstraraðila bæri að tryggja samkeppni í viðskiptum með flugvélaeldsneyti á Keflavíkurflugvelli.

Guðrún segir að nokkurs konar einokun hafi ríkt í eldsneytissölu á svæðinu en nýtt fyrirkomulag muni vonandi tryggja sem flestum olíufélögum aðgang að svæðinu, sem lagfært geti verðlag fyrir flugfélög og herflug.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .