BMJ Energy var eitt af sjö fyrirtækjum sem fengu fjármögnun á viðskiptahraðlinum Startup Energy Reykjavík sem haldið var á síðasta ári. Fyrirtækið gerir bændum og öðrum landeigendum mögulegt að virkja örsmáa læki og lækjarsprænur til að framleiða rafmagn. Stofnandi fyrirtækisins er Bjarni Malmquist Jónsson, bóndasonur austan úr Suðursveit, og hefur hann áralanga reynslu af rafeindabúnaði.

Startup Energy Reykjavík er við­ skiptahraðall fyrir sprotafyrirtæki í orkutengdum iðnaði þar sem sjö sprotar fá fimm milljónir króna í hlutafé gegn tíu prósent eignaraðild bakhjarlanna. Hraðallinn var haldinn í fyrsta skipti í fyrra en fór svo fram í annað skipti nú í vor. Þar sem núna er liðið rúmt ár frá því að BMJ Energy fékk fjármögnunina ákvað blaðamaður að slá á þráðinn til Bjarna til að sjá hvar verkefnið væri statt í dag.

„Þetta byrjaði á því að ég setti upp litla virkjun hér heima í sveitinni árið 2009 og svo hjá frænku minni árið eftir. Fyrsta salan kom svo á síðasta ári, en það er jafnframt minnsta virkjun sem ég hef sett upp. Hún er innan við kílóvatt að stærð. Núna er ég með annað verkefni í vinnslu í Fljóthlíðinni þar sem ég er að setja upp 30 kílóvatta stöð og ef allt gengur eftir verður hún tilbúin í byrjun september. Svo hefur mað­ ur verið að kanna nágrennið hér í kring; hvar möguleikarnir liggja og áhuga hjá fólki,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .