Hátæknifyrirtækið Stjörnu-Oddi hf. sem framleiðir meðal annars rafeindamælitæki hagnaðist um rúmlega 25 milljónir króna árið 2018 samanborið við 12,7 milljóna króna tap árið áður.

Hrein sala félagsins nam 228 milljónum samanborið við 196 milljónir árið áður sem gerir um 16,5% hækkun milli ára. Á sama tíma breyttust útgjöld félagsins lítillega en bæði launakostnaður og skrifstofu- og stjórnunarkostnaður minnkaði á milli ára.

Eignir félagsins námu 227 milljónum í lok árs 2018 en 206 milljónir í lok árs 2017 og hækkuðu því um 10,2%. Þar af hækkaði handbært fé félagsins mest eða úr 21 milljón í 49 milljónir.

Eigið fé félagsins hækkaði úr 121 milljón í 146 milljónir en skuldir félagsins lækkuðu örlítið. Eiginfjárstaða félagsins stendur því í 64,5%.

Í lok árs voru hluthafar félagsins 20 talsins en þar af á Sigmar Guðbjörnsson, fyrrum formaður Samtaka sprotafyrirtækja 43,13% og Jóhanna Ástvaldsdóttir 24,99%. Félagið greiðir ekki út arð.