Seðlabankastjóri Bandaríkjanna, Jerome Powell, segir mikla hættu vera á að vaxtahækkanir bankans hægi of mikið á hagkerfinu en ítrekar þó mikilvægi þess að ná böndum á verðbólgu og verðbólguvæntingum. Reuters greinir frá.

Á árlegri ráðstefnu Evrópska Seðlabankans í Portúgal ítrekaði Powell að bankinn mun halda áfram að hækka vexti þar til böndum hefur verið náð á verðbólgu en verðbólga mældist 8,6% í maí og hefur ekki mælst hærri í 40 ár.

Seðlabanki Bandaríkjanna hækkaði vexti fyrr í þessum mánuði um 75 punkta en um er að ræða mestu vaxtahækkun bankans síðan árið 1994 og eru vextirnir nú á bilinu 1,5 – 1,75%. Frekari vaxtahækkanir eru fyrirséðar í næsta mánuði og gera spár bankans ráð fyrir að vextir munu hækka í 3,4% fyrir lok árs.

Sjá einnig: Mest vaxtahækkunin frá 1994