Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði á Alþingi í dag að mikilvægt væri að allir; þingmenn, aðilar á vinnumarkaði og í bankaheiminum, héldu ró sinni vegna þess umróts sem verið hefði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra tók í sama streng. Hún sagði meðal annars að í ljósi þess að bankarnar væru að fara í gegnum tímabundna erfiðleika skipti miklu máli að allir héldu ró sinni. Hún sagði enn fremur að ekkert benti til annars en að bankarnir stæðust fyllilega samanburð við bankana á hinum Norðurlöndunum.

Þessi ummæli forystumanna stjórnarflokkanna féllu í umræðum utan dagskrár um efnahagsmál sem nú fer fram á Alþingi.

Geir H. Haarde sagði að ákvörðun Seðlabanka Íslands fyrr í vikunni um að auðvelda aðgengi fjármálafyrirtækja að lánsfé hefði verið mikilvæg . Það væri áreiðanlega ein af ástæðum þess að einn af stóru bönkunum hefði hætt við – að minnsta kosti í bili - að útvega stórlán á alþjóðlegum mörkuðum.

Guðni Ágústsson, formaður Framsóknarflokksins, var málshefjandi umræðunnar. Hann sagði að Alþingi hlyti að kalla eftir viðbrögðum ríkisstjórnarinnar í því mikla umróti sem átt hefði sér stað í efnahagslífinu að undanförnu. Ríkisstjórnin gæti ekki verið stikkfrí eða sofið á verðinum.