Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, hefur varað við því að verndarstefna sé að ná fótfestu víða um heim og hefur hvatt þjóðarleiðtoga til að ná samkomulagi um alþjóðaviðskiptasamninga á næsta ári

Auknar vonir standa til að samkomulag náist í kjölfar þingkosninga í Bandaríkjunum og segir Brown, sem mun líklega taka við af Tony Blair sem forsætisráðherra Bretlands, að alþjóðleg fyrirtæki verði að leggja mikla áherslu á að ekki komi til þess að verndarstefna komist aftur á.

Brown segir að allri undirbúningsvinnu sé lokið og frá og með nóvember gæti viðræðunum miðað áfram. Brown segir að Evrópa og Ameríka njóti góðrar samningsstöðu sem geti fengið Indland og Brasilíu til að gefa eftir kröfur sínar og myndað viðskiptabandalag.

Innan bresku ríkisstjórnarinnar standa vonir til að samningur náist áður en sérstakt umboð George W. Bush Bandaríkjaforseta til samninga rennur út næsta sumar. Brown segir að á næstu mánuðum sé tækifæri í boði, sem aðeins standi til boða um skamman tíma. Hann segir að ef að viðræðurnar fari ekki af stað á næstunni muni aldrei verða af samningunum og að mikilvægi þess sé meira en flestir geri sér grein fyrir.

Brown mun halda ræðu í breska þinginu í nóvember og hefur hann staðfest að þar komi fram að hagvöxtur efnahags Bretlands muni verða meiri en 2,5% árið 2006, sem er meira en greiningaraðilar fjármálaráðuneytis hans höfðu spáð. Hann segir að niðurstöðurnar sýni að efnahagur landsins sé nú að verða stöðugri þegar líður á árið, þar sem aukning hefur verið í fjárfestingum, framleiðsluaukning hafi verið og útflutningur hafi gengið vel.

Þrýstingur hefur verið á Brown að lækka skatta og þá sérstaklega fyrirtækjaskatta. Hann segir að fyrirtækjaskattur sé í stöðugri skoðun, en hann er nú 30%, en hann segist þó ekki ætla að taka ákvörðun nú sem stefnir stöðugleika efnahagsins í hættu.