Í kjölfar ákvörðunar peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að lækka meginvexti bankans um 0,5 prósentustig hafa miklar hækkanir orðið á skuldabréfamarkaði. Mikil velta hefur verið á markaðnum það sem af er morgni og nemur heildarvelta á skuldabréfamarkaði samkvæmt upplýsingum Keldunnar um 5,8 milljörðum króna og er veltan langmest með lengstu óverðtryggðu ríkisskuldabréfin, sem eru á gjalddaga árin 2025 og 2031.

Ávöxtunarkrafa á RIKB 16 flokknum hefur lækkað um eina 95 punkta, en krafa á öðrum flokkum ríkisskuldabréfa hafa lækkað um 22-35 punkta. Eftir því sem ákvöxtunarkrafa á skuldabréf lækkar þá hækkar viðkomandi bréf í verði.

Minni velta hefur verið með verðtryggð bréf, en þau hafa þó öll hækkað í verði. Þannig hefur krafa á íbúðabréf Íbúðalánasjóðs lækkað um 14-19 punkta. Af verðtryggðum bréfum hefur veltan verið mest með verðtryggðan ríkisskuldabréfaflokk sem er á gjalddaga árið 2021, eða 519 milljónir króna. Hefur krafan á þeim bréfum lækkað um 13 punkta.

Eins hafa miklar hækkanir orðið á gengi hlutabréfa í dag.