Mikið hefur verið um uppsagnir meðal fjármálafyrirtækja bæði í Bandaríkjunum og Evrópu og að einhverju leyti í Asíu síðustu mánuði.

Bloomberg fréttaveitan greinir frá því í dag að uppsagnirnar jafnist á við það að öllu starfsfólki Goldman Sachs og Morgan Stanley yrði sagt upp á einu bretti.

Bankar og fjármálafyrirtæki hafa þegar tilkynnt um uppsagnir allt að 83 þúsund starfsmanna síðan í júlí síðastliðnum samkvæmt þeim tölum sem Bloomberg hefur tekið saman.

Af þeim 28 félögum sem Bloomberg tekur með í reikninginn hefur hvert félag sagt upp að meðaltali um 3,3% starfsmanna. Það er nokkuð minna en á árunum 2000-2003 þegar mörg fjármálafyrirtæki börðust í bökkum en um 17% verðbréfa- og fjármálafyrirtækja hættu starfssemi á þessum árum samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnum Bandaríkjanna.

„Ég geri ráð fyrir að enn eigi eftir að segja upp fólki,“ hefur Bloomberg eftir Sanford Weill, fyrrverandi stjórnarformaður Citigroup sem starfaði á Wall Street í 53 ár. „Ég held að þetta séu erfiðar aðstæður,“ sagði hann við Bloomberg. Citigroup hefur þegar tilkynnt um uppsagnir 15.900 starfsmanna víðs vegar um heiminn.

Ekki jafn slæmt og á árunum 2000 - 2003

Um 10 þúsund manns hefur verið sagt upp í New York frá því í ágúst samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar Bandaríkjanna. Þar með er ekki allt upp talið því þeir sem nú eru að fá greiddan uppsagnafrest (sem er mislangur) eru enn á launaskrá og því ekki taldir með.

Þá greinir Bloomberg frá því að búist er við frekari uppsögnum og þegar talið er frá júlí í fyrra verði rúmlega 33 þúsund starfsmanna í fjármálageiranum í New York einni saman búnir að missa vinnuna, eða um 7%.

Um 52.000 starfsmanna fjármálageirans misstu vinnuna á árunum 2000 – 2003 eða um 17%.

Einnig er talið að töluverður fjöldi starfsmanna í fjármálageiranum muni missa vinnuna í London á þessu ári og næsta. Centre for Economics and Business Research telur að rúmlega 19 þúsund manns muni missa vinnuna eða um 5,4% starfsmanna í geiranum.

Á árunum 2000 – 2003 misstu rúmlega 15 þúsund manns vinnuna í fjármálageiranum eða 4,7%.