Jean-Claude Juncker formaður Evruhópsins og forsætisráðherra Luxemburgar.
Jean-Claude Juncker formaður Evruhópsins og forsætisráðherra Luxemburgar.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)
Jean-Claude Juncker formaður Evruhópsins og forsætisráðherra Luxemburgar sagði í dag í samtali við Financial Times að 21% niðurskrift á skuldabréfum útgefnum af gríska ríkinu, sem samið var um í júlí, væri ekki nóg. "Hún þarf að aukast mikið" sagði Juncker í samtali við blaðið.

Nú er rætt um að fjárfestar þurfi að taka á sig allt að 60% afskrift á kröfum sínum en hlutfallið hefur farið ört hækkandi alveg frá því að niðurstaða náðist í sumar.

Skuldabréfaeigendur krefjast hagvaxtaráætlunar

Charles Dallara framkvæmdastjóri og aðalsamningamaður Alþjóðlegu fjármálastofnunarinnar (e. The Institute of International Finance) sem fer með samningsumboð fyrir hönd stærsta hluta kröfuhafa gríska ríkisins segir að þeir séu tilbúnir að taka á sig meira tap á skuldabréfunum, en mikið beri enn í milli.

Dallara segir að forsenda samnings sé trúverðug hagvaxtaráætlun í Grikklandi.

Enginn árangur af fundi fjármálaráðherra

Fjármálaráðherrar evruríkjanna hittust í dag, laugardag og veittu aðalsamningamanni sínum, Ítalanum Vittorio Grilli, umboð til samninga við Alþjóðlegu fjármálastofnunina. Fjármálaráðherrarnir komu sér ekki saman um neitt annað . Enn er óleyst hvernig eigi að endurfjármagna evrópska bankakerfið og ekki fannst lausn á hvort og þá hvernig stækka ætti björgunarsjóð ESB.

Miklar efasemdir eru uppi um hvort 440 milljarðar evra nægi sjóðnum. Talað hefur verið að nauðsynlegt sé að tvöfalda hann. Hafa 2.000 milljarðar einnig verið nefndir.

Evrópufáni
Evrópufáni
© Aðrir ljósmyndarar (VB MYND)